29 Maí 2017 15:33

Í síðustu viku slösuðust fjórir vegfarendur og einn lést í fjórum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 21. – 27. maí.

Sunnudaginn 21. maí kl. 13.05 féll hjólreiðamaður á hjólastíg við Gróðrastöð Reykjavíkur í Fossvogi. Hann var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 24. maí kl. 18.09 varð árekstur með pallbíl og bifhjóli í Álfhellu í Hafnarfirði. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á sjúkrahús, en hann lést þar tveimur dögum síðar.

Fimmtudaginn 25. maí kl. 10.24 var bifreið ekið aftan á aðra á Bústavegi við Skógarhlíð. Ökumaður aftari bifreiðarinnar er grunaður um að hafa ekið undir áhrifum lyfja. Ökumaður og farþegi í fremri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Föstudaginn 26. maí kl. 21.15 endaði ökumaður, sem var að prufukeyra vélhjól í Gauksási, inn í garði nálægs húss. Hann var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.