Frá vettvangi í Hófgerði.
6 Júní 2017 10:06

Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur í jafnmörgum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 28. maí – 3. júní.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 29. maí. Kl. 10.53 var bifreið ekið af Háaleitisbraut og staðnæmdist hún á bílskúrshurð húss nr. 89. Ökumaðurinn hafði fengið aðsvif við aksturinn. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.29 varð gangandi vegfarandi á leið norður Lækjargötu fyrir mannlausri bifreið, sem runnið hafði vestur og niður Amtmannsstíg. Hann var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 30. maí. Kl. 13.45 var bifreið ekið á hús nr. 30 við Hófgerði. Ökumaðurinn hafði ætlað að færa bifreiðina með framangreindum afleiðingum. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 16.12 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Barónsstíg, og lögreglubifhjóli, sem var ekið vestur Hverfisgötu. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.17 var bifreið ekið aftan á aðra kyrrstæða á Kauptúni við Urriðaholtsbraut. Ökumaður fremri bifreiðinnar ætlaði í framhaldinu að leita sér aðhlynningar á slysadeild.

Miðvikudaginn 31. maí kl. 17.26 lenti hjólreiðamaður, á leið austur eftir hjólastíg norðan Súðavogar, á hlið bifreiðar, sem var ekið suður Dugguvog. Hann var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 1. júní. Kl. 10.28 var bifreið ekið aftan á aðra á Höfðabakka við Höfðabakkabrú. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 16.44 var bifhjóli ekið aftan á bifreið á leið austur Nýbýlaveg austan Furugrundar. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.28 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Hraunhellu, og bifreið, sem var ekið norður Suðurhellu. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 3. júní. Kl. 0.30 klemmdist fótur konu á milli tveggja bifreiða á bifreiðastæði við Krummahóla. Hún var flutt á slysadeild. Og kl. 10.28 var Toyota Land Cruiser 90 jeppabifreið ekið norður hægri akrein Reykjanesbrautar, beygt áleiðis yfir á vinstri akreinina sunnan Álfabakka og utan í bifreið, sem var ekið norður þá akrein með þeim afleiðingum að hún hafnaði utan vegar. Fyrrnefndu bifreiðinni var ekið á brott af vettvangi, en ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar ætlaði í framhaldinu að leita sér aðhlynningar á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi í Hófgerði.