10 Júlí 2017 10:54
Í síðustu viku slösuðust tólf vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 2. – 8. júlí.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 3. júlí. Kl. 18 féll hjólreiðamaður af reiðhjóli sínu á gangstétt við Borgarhólsbraut 21. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.45 féll hjólreiðmaður á malarstíg við gatnamót Arnarbakka og Grýtubakka. Hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 5. júlí. Kl. 0.42 féllu tvær stúlkur af vespu á göngustíg við Barðastaði. Hvorug var með hjálm. Þær voru fluttar á slysadeild. Og kl. 19.47 var bifreið ekið utan í gangandi vegfaranda við Grensásveg 5 eftir þrætur og þras á millum hans og ökumanns. Hann var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 6. júlí kl. 18.11 varð hjólandi vegfarandi fyrir bifreið á Breiðholtsbraut við Vatnsendahvarf. Hann var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 7. júlí. Kl. 12.18 var bifreið ekið norður Suðurbraut, upp á kant og á ljósastaur við Hvaleyrarskóla. Fluga hafði truflað ökumanninn við aksturinn. Hann ætlaði sjálfur að leita sér aðhlynningar í framhaldinu á slysadeild. Kl. 15.40 varð þriggja bifreiða árekstur í Ártúnsbrekku. Ein bifreiðanna hafnaði síðan á vegriði. Ökumaður þeirrar bifreiðar var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.26 varð árekstur tveggja bifreiða á gatnamótum Sæbrautar og Snekkjuvogs. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 8. júlí. Kl. 16.58 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla í Ártúnsbrekku á leið til austurs. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 17.43 féll bifhjólamaður af hjóli sínu í frárein Miklubrautar að Sæbraut. Hann var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.