Frá vettvangi við Vesturlandsveg.
26 Júlí 2017 09:11

Í síðustu viku slösuðust sjö vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 16. – 22. júlí.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 17. júlí. Kl. 4.54 var bifreið ekið norður Vesturlandsveg norðan Álafossvegar og á ljósastaur við veginn. Við áreksturinn valt bifreiðin. Ökumaðurinn, sem hafði sofnað við aksturinn, var fluttur á slysadeild. Kl. 7.42 féll maður af reiðhjóli á gangstétt Elliðahvammsvegar við Grandahvarf er hann náði ekki beygjunni og lenti á grjóthlöðnum vegg, sem þar er. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.56 féll stúlka af reiðhjóli á Eiðisgranda við Seilugranda. Hún var flutt á slysadeild.

Miðvikudaginn 19. júlí kl. 10 lenti hjólreiðamaður á bifreið við Langatanga 1. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 20. júlí. Kl. 11.44 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Miklubraut, og bifreið, sem var ekið norður Grensásveg. Ökumaður og farþegi síðarnefndu bifreiðarinnar voru fluttir á slysadeild. Og kl. 20.47 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Vesturgötu og beygt áleiðis norður Grófina, og bifhjóli, sem var ekið austur Vesturgötu og beygt norður Grófina. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi við Vesturlandsveg.