Frá vettvangi í Hraunbæ.
4 September 2017 11:06

Í síðustu viku slösuðust fimm vegfarendur í jafnmörgum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 27. ágúst – 2. september.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 28. ágúst. Kl. 16.30 féll drengur af léttu bifhjóli við gatnamót Rofabæjar og Hlaðbæjar. Bifreið hafði verið ekið vestur Rofabæ og beygt til vinstri á gatnamótunum þegar drengurinn, sem hjólað hafði á gangstétt með Rofabæ til vesturs og ætlaði yfir Hlaðbæ, lagði hjólið á hliðina. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.59 féll ökumaður bifhjóls af hjólinu þegar hann var að aka út af bifreiðastæði við Þönglabakka 4 og beygja áleiðis suður Stekkjarbakka. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 31. ágúst. Kl. 17.19 var bifreið ekið austur Hraunbæ og aftan á bifreið, sem var beygt af götunni inn á bifreiðastæði við hús nr. 14.-22. Við áreksturinn kastaðist síðarnefnda bifreiðin áfram og hafnaði á hlið bifreiðar, sem var kyrrstæð á bifreiðastæðinu. Ökumaður var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.39 féll ökumaður bifhjóls af hjóli sínu þegar hann hafði ekið um innri hring Melatorgs og fipast af akstri rauðrar smábifreiðar í ytri hring. Hann var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 1. september kl. 13.46 varð barn á reiðhjóli á leið til vesturs eftir gangstétt við Eskihlíð fyrir bifreið, sem var ekið út frá bifreiðastæði við hús nr. 20. Barnið var flutt á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi í Hraunbæ.