9 Október 2017 18:13
Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 1. – 7. október.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 1. október. Kl. 16.13 varð aftanákeyrsla á afrein Hafnarfjarðarvegar til norðurs að Arnarnesvegi til austurs. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.17 var bifreið ekið austur Kjósaskarðsveg og á kú á veginum á móts við Sogn. Eftir áreksturinn hafnaði bifreiðin utan vegar og kúin drapst. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Fimm umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 3. október. Kl. 8.32 varð hjólreiðamaður, á leið til austurs á gangbraut við Bíldshöfða, fyrir bifreið, sem var ekið á bifreiðastæði við hús nr. 9 og beygt með fyrirhugaða aksturstefnu vestur götuna. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 11.50 var bakkað á fót konu á bifreiðastæðinu við Ikea við Kauptún. Hún leitaði síðar aðstoðar á slysadeild. Kl. 13.45 féll hjólreiðamaður á göngustíg neðan við Vog. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 16.25 varð drengur á hlaupahjóli, á leið yfir gangbraut í Háholti gegnt veitingastaðnum Ásláki, fyrir bifreið, sem var ekið suður götuna. Móðir drengsins, sem kom á vettvang, ætlaði með hann á heilsugæsluna til skoðunar. Og kl. 17 féll drengur af reiðhjóli á skólalóð Norðlingaskóla. Hann var fluttur á slysadeild.
Miðvikudaginn 4. október kl. 8.10 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla í afrein Bústaðavegar að Kringlumýrarbraut. Ökumaður öftustu bifreðarinnar steig óvart á eldneytisgjöfina þegar hann ætlaði að stöðva í röð bifreiða. Tveir ökumannanna voru fluttir á slysadeild.
Föstudaginn 6. október kl. 15.59 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Klettagarða, og bifreið, sem var ekið út af bifreiðastæði við hús nr. 13. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Laugardaginn 7. október kl. 17.12 var bifreið ekið aftur á bak í heimkeyrslu í Frostafold þar sem 8 ára gamalt barn varð fyrir henni. Barnið var flutt á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.