Frá vettvangi á mótum Stakkahrauns og Dalshrauns.
30 Október 2017 10:46

Í síðustu viku slösuðust fimmtán vegfarendur í þrettán umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 22. – 28. október.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 23. október. Kl. 0.47 var bifreið ekið austur Suðurlandsveg og á ljósastaur gegnt Hádegismóum. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 13.09 varð tveggja bifreiða aftanákeyrsla á Vesturlandsvegi gegnt N1 á leið til austurs. Ökumaður fremri bifreiðarinnar og farþegi í þeirri aftari voru fluttir á slysadeild. Og kl. 16.19 varð árekstur bifreiðar og bifhjóls á gatnamótum Lynghálsar og Bitruhálsar. Ökumaður bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 24. október kl. 11.49 var vörubifreið ekið suður Vesturlandsveg. Pallur bifreiðarinnar, sem var uppi, rakst á brúna gegnt Leirvogstungu og rifnaði af. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunar- og lyfjaakstur, var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 25. október. Kl. 14.55 varð árekstur tveggja bifreiða á gatnamótum Dalshrauns og Stakkahrauns. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.49 var bifreið ekið aftan á kyrrstæða bifreið á Bústaðavegi við Gömlu Hringbraut. Við áreksturinn kastaðist fremri bifreiðin aftan á aðra kyrrstæða, sem kastaðist aftan á þá fjórðu. Farþegi í einni bifreiðinni leitaði sér aðstoðar á slysadeild vegna áverka.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 26. október. Kl. 12.58 var bifhjóli ekið út frá athafnasvæði Orkunnar við Klettagarða og á hlið flutningabifreiðar, sem var ekið austur götuna. Bifhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 13.39 var bifreið ekið aftan á kyrrstæða bifreið við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklabrautar. Við það kastaðist bifreiðin áfram og aftan á þriðju bifreiðina, sem var sömuleiðis kyrrstæð. Einn farþegi var fluttur á slysadeild. Kl. 14.16 varð sjö ára drengur á gangbraut á leið yfir Langholtsveg við Álfheima fyrir bifreið. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.24 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Laugaveg og beygt áleiðis norður Kringlumýrarbraut, og bifreið, sem var ekið vestur Suðurlandsbraut. Farþegi í fyrrnefndu bifreiðinni var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 27. október kl. 23.07 var bifreið ekið austur Nýbýlaveg og á umferðarljósavita við gatnamót Þverbrekku og Ástúns. Hemlar bifreiðarinnar reyndust óvirkir. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 28. október. Kl. 1.23 féll hjólreiðamaður af hjóli sínu á Hverfisgötu gegnt húsi nr. 106. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.35 varð árekstur með bifreiðum þar sem þær mættust á Korpúlfsstaðavegi. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar er grunaður um ölvunarakstur. Hinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á mótum Stakkahrauns og Dalshrauns.