13 Nóvember 2017 10:16
Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur og einn lést í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 5. – 11. nóvember.
Mánudaginn 6. nóvember kl. 13.01 varð hjólreiðamaður á leið til norðurs yfir Sæbraut við Kirkjusand fyrir bifreið, sem var ekið austur götuna og dregin af annarri bifreið. Hjólreiðamaðurinn lenti fyrst á hlið fremri bifreiðarinnar og varð síðan undir þeirri aftari. Hann var úrskurðaður látinn við komuna á slysadeild.
Þriðjudaginn 7. nóvember kl. 23.26 var bifreið ekið út af Heiðmerkurvegi skammt frá brúnni yfir Elliðavatn. Farþegi var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 10. nóvember. Kl. 18.42 varð gangandi vegfarandi á leið til austurs yfir Bergstaðarstræti fyrir bifreið, sem var ekið vestur Skólavörðustíg og beygt suður fyrrnefndu götuna. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.03 var bifreið ekið suður Vesturlandsveg og yfir á rangan vegarhelming á móts við Lágafellskirkju þar sem hún lenti á hlið bifreiðar og framan á annarri er var ekið var til norðurs. Tveir ökumannanna og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 11. nóvember. Kl. 10.36 varð drengur fyrir bifreið í Hnappatorgi. Drengurinn hafði verið að renna sér á snjóþotu þegar hún rann af stað og hann hljóp á eftir henni, út á akbrautina. Drengurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.29 var bifreið ekið um Vættaborgir og á grindverk við hús nr. 15. Ökumaðurinn hafði fengið flogaveikiskast áður en óhappið varð. Hann var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.