29 Nóvember 2017 09:24
Í síðustu viku slösuðust sjö vegfarendur og einn lést í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 19. – 25. nóvember.
Sunnudaginn 19. nóvember kl. 12.04 var strætisvagni ekið suður Reykjanesbraut við frárein að Stekkjarbakka og aftan á vörubifreið. Skær lágtlíðandi vetrarsólin hafði blindað sýn ökumanns strætisvagnsins áður en óhappið varð. Hann, ásamt einum farþega, var fluttur á slysadeild.
Miðvikudaginn 22. nóvember kl. 14.58 varð aftanákeyrsla á Sæbraut við Skeiðarvog. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 23. nóvember kl. 11.07 varð árekstur með bifreið, sem var ekið af Helluhrauni inn á Flatahraun, og bifreið, sem var ekið vestur þá götu. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 25. nóvember. Kl. 8.01 lést ökumaður fólksbifreiðar eftir að hafa ekið utan í vegrið á Miklubraut við Skeiðarvog. Farþegi í bifreiðinni var fluttur á slysadeild. Kl. 12.13 var bifreið ekið suður Kringlumýrarbraut á austustu akrein þegar bifreið á miðakrein var beygt utan í hana sunnan Miklubrautar. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar hafði litið stutta stund á leiðsögutæki bifreiðarinnar áður óhappið varð. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 13.12 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla við hringtorg Dalsmára og Dalvegs. Ökumenn aftari bifreiðanna höfðu blindast af lágtlíðandi vetrarsólinni áður en óhappið varð. Ökumaður fremstu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.