Frá vettvangi á Korputorgi.
27 Desember 2017 09:56

Í síðustu viku slösuðust átján vegfarendur í tólf umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 17. – 23. desember.

Sunnudaginn 17. desember kl. 15.39 varð aftanákeyrsla á Sæbraut við Langholtsveg. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 19. desember. Kl. 14.34 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla í frárein Miklubrautar að Reykjanesbraut til suðurs. Tveir ökumannanna voru fluttir á slysadeild. Og kl. 17.10 varð drengur fyrir bifreið á Skeiðarvogi við Nökkvavog. Drengurinn hljóp af vettvangi, en móðir hans fylgdi honum á slysadeild skömmu síðar. Ekki liggja fyrir aðrar upplýsingar um bifreiðina en að um hafi verið að ræða bláa skutfólksbifreið.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 20. desember. Kl. 1.44 var bifreið ekið á vegrið við Vesturlandsveg gegnt Ölgerðinni. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 12.11 var gangandi vegfarandi, á leið til norðurs yfir Kirkjustræti austan Aðalstrætis, fyrir bifreið, sem var ekið vestur Kirkjustræti. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 13.09 varð stúlka fyrir bifreið á Reykjavíkurvegi norðan Hjallabrautar. Ökumaður á leið vestur veginn hafði stöðvað fyrir stúlkunni á hægri akrein og hún hlaupið áleiðis yfir hann þegar bifreið var ekið vestur vinstri akreinina. Stúlkan var flutt á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 21. desember. Kl. 1.25 lentu tvær bifreiðir framan á hvor annarri á Korputorgi. Annar ökumannanna hafði verið að „drifta“ þar áður en óhappið varð. Ökumaður og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild. Kl. 18.34 varð gangandi vegfarandi, á leið yfir Ármúla við Vegmúla, fyrir bifreið, sem var ekið vestur götuna. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.28 var bifreið ekið suður Hafnarfjarðarveg í Kópavogsgjánni á vinstri akrein, utan í vinstri hlið bifreiðar, sem var ekið samhliða á hægri akrein og síðan á vegg gjárinnar, þar sem hún stöðvaðist. Ökumaðurinn hafði fengið aðsvif áður en óhappið varð. Hann og hinn ökumaðurinn voru fluttir á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 22. desember. Kl.6.51 var fólksbifreið ekið vestur Reykjanesbraut, beygt svolítið til hægri gegnt Rauðhellu, síðan snöggt til vinstri, áleiðis í U-beygju, og í veg fyrir flutningabifreið, sem var ekið á eftir henni. Ökumaður og farþegi fyrrnefndu bifreiðarinnar voru fluttir á slysadeild. Kl. 7.44 var fólksbifreið ekið austur Reykjanesbraut vestan álversins og utan í afturhorn fólksflutningabifreiðar, sem stöðvuð var framundan í röð bifreiða. Fyrrnefnda bifreiðin hafnaði síðan utan vegar. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 8.07 var bifreið ekið vestur Vesturlandsveg og á ljósastaur við hringtorg gegnt Lágafellskirkju. Athygli ökumanns hafi beinst að „Google maps“ í farsímanum áður en óhappið varð. Hann var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða, bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á Korputorgi.