Frá vettvangi við Ásbraut.
18 Desember 2017 16:19

Í síðustu viku slösuðust sjö vegfarendur í fjórum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 10. – 16. desember.

Sunnudaginn 10. desember kl. 0.56 var bifreið ekið á miklum hraða vestur Straum og á kyrrstæða lögreglubifreið við gatnamót Breiðhöfða og síðan á brott af vettvangi. Ökumaðurinn var stöðvaður í akstri skömmu síðar og handtekinn. Hann er grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna. Ökumaður og farþegi lögreglubifreiðarinnar voru fluttir á slysadeild.

Þriðjudaginn 12. desember kl. 17.57 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið á bifreiðastæði við Hraunbæ 117. Hann var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 13. desember kl. 8.34 var bifreið ekið um Ásbraut að Sörlatorgi og á ljósastaur. Ökumaðurinn, sem hafði teygt sig eftir farsíma sínum er dottið hafði á gólfið, var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 14. desember kl. 15.57 varð gangandi vegfarandi með tvö börn í kerru, á leið yfir Skeiðarvog til austurs, fyrir bifreið, sem var ekið austur Langholtsveg og beygt suður Skeiðarvog. Þau þrjú voru flutt á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða, bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi við Ásbraut.