2 Janúar 2018 10:11
Í síðustu viku slösuðust tíu vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 24. – 30. desember.
Sunnudaginn 24. desember kl. 17.08 var bifreið ekið norður Reykjanesbraut. Vestan álversins ætlaði ökumaðurinn að skipta um akrein, en uppgötvaði þá að hann hafði farið yfir á rangan vegarhelming. Í því var bifreið ekið suður Reykjanesbraut og framan á fyrrnefndu bifreiðina. Þá var þriðju bifreiðinni, sem var ekið suður brautina, ekið utan í hinar tvær. Ökumaður einnar bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Mánudaginn 25. desember kl. 15.07 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Álftanesveg og beygt áleiðis norður Reykjavíkurveg, og bifreið, sem var ekið suður Reykjavíkurveg. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Þriðjudaginn 26. desember kl. 17.34 var bifreið ekið norður Hvaleyrarbraut og á timburstafla og mannlausa hjólagröfu við Stapagötu. Farþegi í bifreiðinni var fluttur á slysadeild.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 29. desember. Kl. 14.54 varð aftanákeyrsla á Reykjanesbraut á móts við Dalveg á leið til suðurs. Við áreksturinn kastaðist fremri bifreiðin aftan á festivagn kyrrstæðrar dráttarbifreiðar í röð framundan. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Kl. 16.44 varð hjólreiðamaður, á leið austur göngustíg með Sævarhöfða, fyrir bifreið, sem var ekið suður Tangarhöfða. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 17.26 varð drengur, sem hljóp áleiðis yfir Hvannavelli við Hafravelli, afturundan kyrrstæðum strætisvagni, fyrir bifreið, sem var ekið vestur Hvannavelli. Drengurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.56 varð aftanákeyrsla á Sóleyjargötu til norðurs við Skothúsveg. Ökumaður aftari bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 30. desember. Kl. 15.36 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Kringlumýrarbraut, og bifreiðar, sem var ekið austur Borgartún. Við áreksturinn kastaðist síðarnefnda bifreiðin á hlið bifreiðar, sem var ekið samhliða henni austur Borgartún. Sú bifreið hafnaði síðan á umferðarljósavita við gatnamótin. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.20 varð gangandi vegfarandi, á leið til norðurs yfir Hverfisgötu vestan Snorrabrautar, fyrir bifreið, sem var ekið norður Snorrabraut og beygt vestur Hverfisgötu. Hann var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða, bifreiða eða reiðhjóla.