15 Janúar 2018 15:17
Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 7. – 13. janúar.
Mánudaginn 8. janúar kl. 15.39 varð árekstur tveggja bifreiða á gatnamótum Vatnagarða og Sægarða. Tvennt var flutt á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 9. janúar. Kl. 9.04 var bifreið ekið á steypt blómaker við Hamraborg 14. Tvennt var flutt á slysadeild. Kl. 19.08 varð stúlka, á leið austur yfir Víkurveg á merktri gangbraut, fyrir lítilli, grárri bifreið, sem var ekið norður götuna. Ökumaðurinn, kvenmaður með millisítt hár og gleraugu, á aldrinum 30-40 ára, ræddi við hana, en ók síðan af vettvangi. Stúlkan leitaði á slysadeild daginn eftir. Og kl. 23.07 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið á bifreiðastæði við Kleppsveg 72. Hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 10. janúar. Kl. 10.16 var bifreið ekið norður Nesjavallaveg og út af, þar sem hún valt. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunarakstur, var fluttur á slysadeild. Og kl. 10.33 var bifreið ekið frá Flugvallavegi að Hlíðarenda og á steinvegg, sem þar er við beygju. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.
Laugardaginn 13. janúar kl. 23.06 varð árekstur tveggja bifreiða á gatnamótum Hafnarfjarðarvegar og Vífilsstaðavegar. Tvennt var flutt á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða, bifreiða eða reiðhjóla.