Frá vettvangi við Vesturlandsveg í Mosfellsbæ.
22 Janúar 2018 16:06

Í síðustu viku slösuðust sautján vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 14. – 20. janúar.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 14. janúar. Kl. 9.28 var bifreið ekið á umferðarmerki og ljósastaur við Kringlumýrarbraut skammt frá Sigtúni. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.26 var bifreið ekið aftan á kyrrstæða bifreið á Kringlumýrarbraut við Háaleitisbraut, sem kastaðist aftan á þriðju bifreiðina, sem kastaðist aftan á þá fjórðu. Ökumaður og farþegi úr einni bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Þriðjudaginn 16. janúar kl. 8.06 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Suðurlandsveg, og bifreið, sem var ekið suður Suðurlandsveg og yfir á öfugan vegarhelming gegnt Hádegismóum. Tjón varð á tveimur öðrum bifreiðum við áreksturinn. Báðir ökumennirnir og farþegi voru fluttir á slysadeild. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar er grunaður um að hafa verið undir áhrifum áfengis.

Miðvikudaginn 17. janúar kl. 9.21 var bifreið ekið austur Suðurlandsveg, yfir á rangan vegarhelming í Lögbergsbrekku og á hlið bifreiðar, sem var ekið vestur veginn. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 18. janúar. Kl. 8.05 var bifreið ekið framan á bifreið er var ekið í gagnstæða átt í Brekkulandi við Ásbrekku. Báðir ökumennirnir og farþegi í annarri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Kl. 10.43 var bifreið ekið vestur Vesturlandsveg og á ljósastaur við veginn gegnt Lágafellskirkju. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.58 var bifreið ekið norður Arnarbakka og á ljósastaur nálægt Ferjubakka. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 19. janúar kl. 13.34 varð fimm bifreiða aftanákeyrsla á Höfðabakka til suðurs, norðan Dvergshöfða. Tveir ökumenn og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Laugardaginn 20. janúar kl. 8.06 varð árekstur á gatnamótum Breiðholtsbrautar og Nýbýlavegar, en þar lentu saman bifreið sem var ekið vestur Breiðholtsbraut og bifreið sem var ekið af frárein Reykjanesbrautar, en ökumaður hennar beygði til vinstri á gatnamótunum og hugðist síðan aka austur Breiðholtsbraut. Annar ökumannanna kvartaði undan verkjum og leitaði á sjúkrahús í framhaldinu.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða, bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi við Vesturlandsveg í Mosfellsbæ.