Frá vettvangi á Breiðholtsbraut.
29 Janúar 2018 16:02

Í síðustu viku slösuðust nítján vegfarendur og einn lést í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 21. – 27. janúar.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 21. janúar. Kl. 1.31 var bifreið ekið vestur Arnarnesveg og á steypustólpa við hringtorg Arnarnesvegar við Reykjanesbraut. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild þar sem hann var úrskurðaður látinn. Kl. 13.30 varð gangandi drengur, á leið austur yfir Bugðulæk, fyrir bifreið, sem var ekið suður götuna. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 20.09 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Breiðholtsbraut, og bifreið, sem var ekið suður götuna, áleiðis í U-beygju gegnt Stöng og í veg fyrir fyrrgreindu bifreiðina. Ökumaður og farþegi í annarri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Og kl. 23.26 var bifreið ekið vestur Reykjanesbraut og á ljósastaur við brautina gegnt Rauðhellu. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 22. janúar kl. 13.38 var strætisvagnið ekið vestur Vesturlandsveg og út af veginum skammt vestan Hvalfjarðargangna. Átta farþegar voru fluttir á slysadeild.

Þriðjudaginn 23. janúar kl. 12.27 varð aftanákeyrsla á Sævarhöfða til suðurs norðan Bíldshöfða. Tveir farþegar í fremri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 27. janúar. Kl. 1.18 var bifreið ekið austur Miklubraut, upp á kant vestan Lönguhlíðar og síðan aftan á bifreið við gatnamótin. Ökumaðurinn er grunaður um ölvunarakstur. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 18.46 varð árekstur tveggja bifreiða á gatnamótum Langatanga og Bogatanga. Þrennt var flutt á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða, bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á Breiðholtsbraut.