12 Febrúar 2018 15:51
Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 4. – 10. febrúar.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 5. febrúar. Kl. 14.09 var bifreið ekið austur Arnarnesveg, á hægra afturhorn bifreiðar við Hlíðarsmára og síðan á umferðarskilti við veginn. Ökumaðurinn ætlaði sjálfur á slysadeild í framhaldinu. Og kl. 15.42 var bifreið ekið suður Kringlumýrarbraut og á hlið bifreiðar, sem ekið var samhliða henni við Bústaðaveg. Eftir áreksturinn hafnaði síðarnefnda bifreiðin utan í vegriði þar sem hún stöðvaðist. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var réttindalaus og er grunaður um að hafa ekið undir áhrifum áfengis. Hinn ökumaðurinn ætlaði að leita sér aðstoðar á slysadeild vegna eymsla.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 7. febrúar. Kl. 7.20 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á afrein Reykjanesbrautar til norðurs, sunnan Breiðholtsbrautar. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.56 varð aftanákeyrsla á Vesturlandsvegi til vesturs við Korúlfsstaðaveg. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 8. febrúar. Kl. 9.14 var bifreið ekið norður Krýsuvíkurveg og út fyrir veg á móts við keppnissvæði AÍH þar sem hún valt. Ökumaðurinn var ökuréttindalaus, á stolinni bifreið og er auk þess grunaður um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.13 varð gangandi vegfarandi fyrir spegli sendibifreiðar, sem var ekið um Garðastræti gegnt húsi nr. 9. Eftir óhappið stöðvaði ökumaðurinn, sté út úr bifreiðinni, sparkaði í vegfarandann og ók síðan á brott eftir að hafa ausið úr sér svívirðingar. Atvikið var kært í framhaldinu og hinum meidda bent á að leita sér aðstoðar á slysadeild.
Föstudaginn 9. febrúar kl. 9.09 var bifreið ekið norður Reykjanesbraut á hægri akrein og aftan á kyrrstæða lögreglubifreið með viðvörunarljós tendruð aftan við kyrrstæða eldsneytislausa bifreið við afrein að Vífilsstaðavegi. Við áreksturinn köstuðust lögreglubifreiðin og aftari bifreiðin yfir á vinstri akrein þar sem þær lentu á bifreið, sem á sama tíma var ekið um vinstri akreinina. Þrír ökumenn og farþegi voru fluttir á slysadeild. Ökumaður fyrstnefndu bifreiðarinnar er grunaður um hafa verið undir áhrifum fíkniefna við aksturinn.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.