Frá vettvangi á Hafnarfjarðarvegi.
19 Febrúar 2018 10:52

Í síðustu viku slösuðust tuttugu og tveir vegfarendur í þrettán umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 11. – 17. febrúar.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 11. febrúar. Kl. 7.49 var bifreið ekið norður Suðurlandsveg, yfir á rangan vegarhelming við Rauðavatn og út fyrir veg þar sem hún valt á hliðina. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunar- og fíknefnaakstur, var fluttur á slysadeild. Kl. 12.52 lentu níu ökutæki í einni kös eftir árekstur á Hafnarfjarðarvegi við Kópavogslæk til suðurs. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.03 varð aftanákeyrsla á Lækjargötu við Skólabrú. Ökumaður og farþegi í fremri bifreiðinni ætluðu að leita sér aðstoðar á slysadeild vegna eymsla.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 13. febrúar. Kl. 7.44 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Hvammabraut, og bifreið, sem var ekið norður Háahvamm. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 8.06 var bifreið ekið vestur Bústaðaveg, yfir á rangan vegarhelming ofan við Hörðaland og á hlið bifreiðar, sem var ekið vestur götuna. Við áreksturinn rakst síðarnefnda bifreiðin á hlið bifreiðar á leið til vesturs. Tveir ökumenn og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild. Og kl. 18.23 varð gangandi vegfarandi, á leið norður yfir Suðurlandsbraut, fyrir bifreið, sem var ekið austur brautina gegnt húsi nr. 18. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 14. febrúar. Kl. 14.03 varð gangandi vegfarandi, á leið vestur yfir Seljabraut aftan við kyrrstæðan strætisvagn gegnt Engjaseli, fyrir bifreið, sem var ekið suður götuna. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.48, varð drengur, sem hlaupið hafði út á Hvannavelli aftan við kyrrstæðan strætisvagn við Hnoðravelli, fyrir bifreið, sem var ekið vestur götuna. Hann var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 16. febrúar kl. 17.50 var bifreið ekið vestur Reykjanesbraut og út fyrir veg norðan Vífilsstaðavegar, þar sem hún valt. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 17. febrúar. Kl. 9.19 varð árekstur tveggja bifreiða á gatnamótum Fjarðarhrauns, Hafnarfjarðarvegar, Álftanesvegar og Reykjavíkurvegar. Annarri bifreiðinni var ekið norður Fjarðarhraun og hinni vestur Hafnarfjarðarveg. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 17.20 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla í afrein Hafnarfjarðarvegar að Kársnesvegi til suðurs. Tveir ökumannanna og farþegi voru fluttir á slysadeild. Kl. 17.50 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Bústaðaveg, og tveimur öðrum, sem var ekið af afrein Kringlumýrarbrautar til norðurs og beygt áleiðis vestur Bústaðaveg. Þrír ökumannanna auk farþega voru fluttir á slysadeild. Og kl. 18.36 var bifreið ekið norður Vesturlandsveg og út fyrir veg í botni Kollafjarðar, þar sem hún valt. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða, bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á Hafnarfjarðarvegi.