Frá vettvangi við Höfðabakka.
3 Apríl 2018 11:50

Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 25. – 31. mars.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 25. mars. Kl. 13.59 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Vesturlandsvegi til norðurs á móts við afleggjarann að Tindum. Tveir ökumannanna og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 19.50 féll hjólreiðamaður á Sturlugötu gegnt Öskju. Hann var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 26. mars kl. 21.37 varð gangandi vegfarandi, sem hljóp áleiðis yfir Fífuhvammsveg aftan við kyrrstæðan strætisvagn á biðstöð við Galtalind, fyrir bifreið, sem var ekið suður götuna. Hann var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 27. mars kl. 17.30 varð aftanákeyrsla á Ásbraut við Reykjanesbraut á leið til suðurs. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 28. mars kl. 15.12 kastaðist farþegi úr miðsæti aftast í strætisvagni þegar ökumaður vagsins þurfti að hemla snögglega á leið austur Miklubraut austan Grensásvegar. Farþeginn var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 29. mars kl. 15.37 varð aftanákeyrsla á Fífuhvammsvegi við Hlíðarsmára. Ökumaður fremri bifreiðarinnar leitaði sér aðstoðar í framhaldinu á slysadeild.

Föstudaginn 30. mars kl. 13.18 var bifreið ekið norður Höfðabakka, beygt áleiðis til austurs á veginum sunnan Elliðaáa þar sem hún valt heila veltu. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur. Farþegi var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 31. mars kl. 22.26 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Kringlumýrarbraut, og bifreið, sem var ekið suður brautina og beygt austur Listabraut. Báðir ökumennirnir eru grunaðir um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna. Þeir voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi við Höfðabakka.