Frá vettvangi í Kópavogi.
9 Apríl 2018 14:45

Í síðustu viku slösuðust fjórir vegfarendur í jafnmörgum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 1. – 7. apríl.

Mánudaginn 2. apríl kl. 3.29 var bifreið ekið um og þvert yfir Kársnesbraut, í gegnum girðingu og inn á lóð húss við Huldubraut. Þrír karlmenn sáust ganga frá bifreiðinni. Þeir voru handteknir skömmu síðar. Allir virtust þeir undir áhrifum áfengis, enginn hafði ökuréttindi og hver benti á annan að hafa ekið bifreiðinni umrætt sinn. Einn þeirra var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 5. apríl kl. 18.15 féll drengur af reiðhjóli á rampi við lóð Hólabrekkuskóla. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 6. apríl. Kl. 10.04 var sendibifreið ekið austur Hringbraut og aftan á bifreið við gatnamót Hofsvallagötu. Við áreksturinn kastaðist fremri bifreiðin aftan á aðra kyrrstæða bifreið við gatnamótin. Ökumaður og farþegi öftustu bifreiðarinnar hlupu á brott af vettvangi, en voru handtekin skömmu síðar. Ökumaðurinn reyndist vera sviptur ökuréttindun, hafa tekið bifreiðina ófrjálsri hendi og er auk þess grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna við aksturinn. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.13 var bifhjóli ekið norður Grensásveg og beygt áleiðis vestur Miklubraut þegar ökumaðurinn missti vald á því og féll í götuna. Hann var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi í Kópavogi.