16 Apríl 2018 09:53
Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur og einn lést í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 8. – 14. apríl.
Mánudaginn 9. apríl kl. 17.49 varð gangandi vegfarandi á leið til vesturs yfir Reykjanesbraut, ofan undirgangna gegnt Mjódd, fyrir bifreið, sem var ekið suður brautina. Hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 10. apríl. Kl. 8.04 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Nýbýlaveg, og bifreið, sem var ekið inn á veginn frá húsi nr. 56 og beygt áleiðis til vesturs. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Og 20.09 féll drengur af krossara á Ásvallabraut við Lindartorg. Hann var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 13. apríl. Kl. 15.31 var bifreið ekið norður Snorrabraut og á umferðarmerki á miðeyju milli Laugavegar og Snorrabrautar. Ökumaðurinn, sem var með útrunnin ökuréttindi, hafði fengið aðsvif við aksturinn. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 18.34 féll hjólreiðamaður af hjóli sínu á Hringbraut til vesturs gegnt húsi nr. 77. Hann var fluttur á slysadeild, en var úrskuðaður látinn er þangað var komið. Og kl. 18.45 varð fimm ára drengur fyrir bifreið á Nýlendugötu gegnt húsi nr. 23. Faðir hans, sem var í för með drengnum, flutti hann á slysadeild.
Laugardaginn 14. apríl kl. 4.37 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut, á enda vegriðs skammt frá Hnoðraholtsvegi og síðan á ljósastaur. Ökumaður og farþegi gengu í burtu frá bifreiðinni, en voru handteknir skömmu síðar. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Báðir voru fluttir á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.