Frá vettvangi á Breiðholtsbraut.
23 Apríl 2018 16:12

Í síðustu viku slösuðust sex vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 15. – 21. apríl.

Mánudaginn 16. apríl kl. 19.07 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Breiðholtsbraut á vinstri akrein, beygt yfir á hægri akrein skammt austan Nýbýlavegar og utan í hlið bifreiðar, sem var ekið vestur þá akrein. Við áreksturinn snerust bifreiðarnar og lentu á bifreið framundan á hægri akrein. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 18. apríl kl. 17.34 var tvennt, ökumaður og farþegi, flutt á slysadeild eftir að hafa ekið á hurð bílageymslu við Miðleiti 5.

Fimmtudaginn 19. apríl kl. 15.39 varð hjólreiðamaður, á leið yfir Kringlumýrarbraut á gangbraut gegnt Suðurveri, fyrir bifreið, sem var ekið norður brautina. Ökumaðurinn ók á brott af vettvangi eftir óhappið. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 20. apríl kl. 16.09 varð hjólreiðamaður, á leið vestur Ármúla og beygt inn á bifreiðastæði Fjölbrautaskólans, fyrir bifreið, sem var ekið áleiðis út af stæðinu. Hann var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 21. apríl kl. 17.29 varð þriggja bifreiða árekstur á Kringlumýrarbaut norðan Listabrautar á leið til suðurs. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á Breiðholtsbraut.