Frá vettvangi á Hafnarfjarðarvegi, sunnan við Nesti.
7 Maí 2018 10:37

Í síðustu viku slösuðust sextán vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 29. apríl – 5. maí.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 29. apríl. Kl. 2.42 var bifreið ekið vestur Hringbraut og aftan á kyrrstæða bifreið á brautinni austan Njarðargötu. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var upptekinn við að stilla miðstöðina áður en óhappið varð. Hann, ásamt farþega og ökumanni hinnar bifreiðarinnar, var fluttur á slysadeild. Kl. 1.54 féll ölvaður maður af reiðhjóli á bifreiðastæði við Suðurlandsbraut 48. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 5.40 varð gangandi vegfarandi, á leið norður yfir Bankastræti vestan Þingholtsstrætis, fyrir bifreið, sem var ekið vestur Bankastræti. Ökumaðurinn ók á brott af vettvangi, en fannst skömmu síðar með aðstoð vitnis og eftir skoðun á upptöku úr eftirlitsmyndavélakerfi Miðborgarinnar. Gangandi vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 30. apríl kl. 14.48 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Vesturlandsvegi í Ártúnsbrekku á leið til austurs. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 3. maí. Kl. 5.16 var bifreið ekið suður Hafnarfjarðarveg og á ljósastaur við veginn skammt norðan fráreinar að Arnarnesvegi. Ökumaður og þrír farþegar voru fluttir á slysadeild. Og kl. 8.42 varð drengur á vespu fyrir bifreið, sem var ekið austur Álfhólsveg og beygt áleiðis að húsi nr. 10. Honum var ekið á slysadeild.

Föstudaginn 4. maí kl. 18.49 féll maður af rafmagnsreiðhjóli á göngustíg milli Sóltúns og Kringlumýrarbrautar. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 5. maí. Kl. 5.33 var bifreið ekið norður Hafnarfjarðarveg og á ljósastaur í Fossvogi skammt sunnan við Nesti. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.31 varð aftanákeyrsla á Miklubraut vestan Grensásvegar á leið til austurs. Þrír farþegar í fremri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á Hafnarfjarðarvegi, sunnan við Nesti.