14 Maí 2018 14:27
Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 6. – 12. maí.
Þriðjudaginn 8. maí kl. 16.05 féll maður af reiðhjóli á gatnamótum Grensásvegar og Fellsmúla. Hann var fluttur á slysadeild.
Miðvikudaginn 9. maí kl. 8.23 var bifreið ekið úr hringtorgi á gatnamótum Vatnsendavegar og Vatnsendahvarfs á strætisvagnsskýli og á umferðarmerki áður en hún stöðvaðist utan vegar. Ökumaðurinn, sem hafði fengið aðsvif, var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 10. maí kl. 10.59 féll ökumaður af bifhjóli á Bíldshöfða gegnt Brimborg á leið til vesturs. Hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 11. maí. Kl. 13.48 varð aftanákeyrsla á Sæbraut, á leið til austurs, við Sægarða. Ökumaður og farþegi aftari bifreiðarinnar voru fluttir á slysadeild. Og kl. 13.57 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Kringlumýrarbraut og beygt áleiðis vestur Sæbraut, og lögreglubifhjóli, sem var ekið austur Sæbraut. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 12. maí. Kl. 12.03 var bifreið ekið á steyptan kant á bifreiðastæði við Hamraborg 11. Ökumaður og farþegi ætluðu að leita sér aðhlynningar á slysadeild í framhaldinu. Og kl. 15.05 lentu hjólreiðamanni og gangandi vegfarandi saman á gangstétt við Suðurgötu nálægt Eggertsgötu. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.