Frá vettvangi á gatnamótum Miklubrautar og Grensásvegar.
28 Maí 2018 10:17

Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 20. – 26. maí.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 20. maí. Kl. 11.19 féll hjólreiðamaður á göngustíg í Öskjuhlíð. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.19 varð drengur fyrir bifreið á Sogavegi gegnt húsi nr. 158. Faðir drengsins fór með hann á slysadeild til aðhlynningar. Ökumaðurinn hafði verið sviptur ökuréttindum, auk þess sem hann er grunaður um ölvun við akstur.

Mánudaginn 21. maí kl. 12.11 féll stúlka af hjóli sínu á göngustíg við Grænatún 3. Hún var flutt á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 22. maí. Kl. 8.11 var bensínvespu ekið suður gangstétt austan Fjallkonuvegar og á kyrrstæða bifreið með stefnu til vesturs á Reykjafold við gatnamótin. Trjágróður við gatnamótin skyggði á útsýni um gatnamótin. Ökumaður vespunnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 11.44 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Miklubraut og beygt áleiðis norður Grensásveg, og bifreið, sem var ekið vestur Miklubraut. Farþegi í framsæti fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 24. maí kl. 13.18 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Reykjavíkurveg og beygt áleiðis vestur Álftanesveg, og bifreið, sem var ekið suður Hafnarfjarðarveg. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar ætlaði í framhaldinu að leita sér aðhlynningar á slysadeild.

Föstudaginn 25. maí kl. 0.33 var bifreið ekið austur Strandgötu og á ljósastaur á móts við Vallarbarð. Tveir farþegar voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á gatnamótum Miklubrautar og Grensásvegar.