Frá vettvangi á Suðurlandsvegi.
22 Maí 2018 09:04

Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 13. – 19. maí.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 13. maí. Kl. 0.01 var bifreið ekið norður Vífilsstaðaveg, beygt til áleiðis til hægri við Garðatorg og síðan til vinstri, áleiðis í U-beygju þegar bifhjóli, sem ekið hafði verið á eftir bifreiðinni, var ekið fram úr henni vinstra megin. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á slysadeild. Kl. 13.53 féll hjólreiðamaður, í hópi hjólreiðafólks á leið vestur Herjólfsgötu, af hjólinu. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.18 féll ölvaður hjólreiðamaður, á leið norður Höfðabakka, af hjólinu á móts við hús nr. 1. Hann var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 15. maí kl. 8.14 féll stúlka af hjóli í Austurbergi við Fjölbrautaskólann. Hún var flutt á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 18. maí. Kl. 16.58 féll hjólreiðamaður á Rafstöðvarvegi gegnt húsi nr. 4. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.30 lenti hjólreiðamaður, sem hjólaði norður Klapparstíg, á bifreið, sem var ekið austur Hverfisgötu. Hann var fluttur á slysadeild.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 19. maí. Kl. 4.32 var bifreið ekið á hús Hamborgarabúllu Tómasar við Geirsgötu. Tveir farþegar voru fluttir á Slysadeild, en ökumaðurinn yfirgaf vettvang fótgangandi. Hann var handtekinn skömmu síðar. Í ljós kom að hann hafði tekið bifreiðina ófrjálsri hendi, auk þess sem hann er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis. Kl. 13.12 varð árekstur með bifreið, sem var ekið suður Suðurlandsveg og áleiðis í U-beygju á veginum á móts við Krókháls, og bifreið, sem var ekið suður veginn. Farþegi í fyrrnefndu bifreiðinni var fluttur á slysadeild. Kl. 14.34 var bifreið velt eina veltu á Vesturvör gegnt húsi nr. 29. Ökumaðurinn hvarf á brott af vettvangi, en farþegi, sem var á staðnum, var fluttur á slysadeild. Og kl. 18:29 féll hjólreiðamaður af hjóli sínu á Skálafellsvegi við Þingvallaveg. Hann var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á Suðurlandsvegi.