11 Júní 2018 11:42
Í síðustu viku slösuðust sautján vegfarendur og einn lést í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 3. – 9. júní.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 4. júní. Kl. 14.04 var vespu ekið til norðurs á gangbraut yfir Bústaðaveg austan Kringlumýrarbrautar og á vinstri hlið bifreiðar, sem var ekið af stað austan gangbrautarinnar til vesturs. Ökumaður vespunnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.23 varð árekstur með bifreið, sem var ekið suður Vesturlandsveg á móts við Enni, og bifreið, sem var ekið í gagnstæða átt. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var úrskurðaður látinn á vettvangi. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar og átta farþegar í henni voru fluttir á slysadeild.
Miðvikudaginn 6. júní kl. 15.18 varð aftanákeyrsla á vinstri akrein Reykjanesbrautar gegnt Smáralind á leið til suðurs. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 7. júní. Kl. 9.33 féll kona af „Segway-hjóli” á Miðbakka. Hún var flutt á slysadeild. Kl. 11.36 féll maður af reiðhjóli á hjólastíg við Suðurgötu gegnt vesturenda flugbrautarinnar. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 14.59 varð aftanákeyrsla á Vesturlandsvegi við Suðurlandsveg. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 9. júní. Kl. 16.48 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut á vinstri akrein, beygt yfir á þá hægri á milli bifreiða gegnt Hnoðraholti og aftan á bifreið, sem þar var ekið til suðurs. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.06 féll hjólreiðamaður á Hvaleyrarvatnsvegi við Krýsuvíkurveg. Hann var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.