Frá vettvangi á Reykjanesbraut.
18 Júní 2018 09:32

Í síðustu viku slösuðust nítján vegfarendur í ellefu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 10. – 16. júní.

Mánudaginn 11. júní kl. 16.30 varð drengur á reiðhjóli við Ástorg fyrir blárri skutbifreið, sem var ekið vestur Ásbraut. Ökumaðurinn, sem var upptekinn við að tala í síma, virtist ekki hafa orðið óhappsins var því hann ók á brott af vettvangi. Móðir drengsins ók honum á slysadeild til aðhlynningar.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 12. júní. Kl. 7.43 bifreið ekið austur Reykjanesbraut á miklum hraða og á ellefu bifreiðar í röð bifreiða á báðum akreinum brautarinnar skammt vestan hringtorgs við Lækjargötu. Áður hafði bifreiðinni verið ekið utan í aðra bifreið við álverið. Ökumaðurinn, sem er grunaður að hafa ekið undir áhrifum áfengis og fíkniefna, var fluttur á slysadeild, auk annars ökumanns. Og kl. 17.36 féll reiðhjólamaður á Fossvogsvegi við Gróðrastöðina. Hann var fluttur á slysadeild.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 13. júní. Kl. 18.01 var bifreið ekið af Geirsgötu áleiðis inn á Kalkofnsveg og á tvo gangandi vegfarendur, sem voru á leið yfir götuna. Þeir voru báðir fluttir á slysadeild. Kl. 18.48 varð hjólreiðamaður, á leið austur hjólastíg við Laugaveg, fyrir bifreið, sem var ekið frá Hátúni áleiðis inn á veginn. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 18.56 var númerslausri bifreið ekið norður Stekkjarbakka og á lögreglubifreið norðan Grænastekks eftir ellefu mínútna eftirför um götur borgarinnar. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunarakstur, og fjórir lögreglumenn voru fluttir á slysadeild. Og kl. 19.06 féll drengur af reiðhjóli á gangstíg í undirgöngum við Ásgarð (Garðabæ). Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 14. júní. Kl. 14.37 var vörubifreið ekið norður Reykjanesbraut og aftan á tvær kyrrstæðar bifreiðir sunnan gatnamóta Bústaðavegar. Ökumaður og farþegi í einni bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Og kl. 18.02 varð árekstur með vespu, sem var ekið suður Skipasund, og bifreið, sem var ekið vestur Holtaveg. Ökumaður og farþegi vespunnar voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 15. júní. Kl. 10.43 var bifreið ekið austur Vesturlandsveg og á ljósastaur í afrein frá Sæbraut. Ökumaðurinn,  sem hafði verið að skoða farsímann sinn áður en óhappið varð, er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.27 varð gangandi vegfarandi á leið norður yfir Sörlaskjól fyrir reiðhjóli á leið austur götuna gegnt húsi nr. 76. Hann var fluttur á slysadeild.


Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á Reykjanesbraut.