Frá vettvangi á Breiðholtsbraut.
2 Júlí 2018 10:57

Í síðustu viku slösuðust tólf vegfarendur í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 24. – 30. júní.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 24. júní. Kl. 17.33 var bifreið ekið Úlfarsbraut og inn á Fellaveg. Í beygjunni missti ökumaðurinn stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún lenti á umferðarmerki og stöðvaðist síðan á ljósastaur. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Kl. 22.34 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Kringlumýrarbraut á leið til suðurs, milli Háaleitisbrautar og Miklubrautar. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.52 var bifreið ekið vestur Breiðholtsbraut og beygt áleiðis norður frárein að Reykjanesbraut, þar sem hún stöðvaðist á ljósastaur. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunarakstur, var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 26. júní. Kl. 16.43 féll ökumaður bifhjóls af hjólinu á frárein Vesturlandsvegar að Suðurlandsvegi. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.04 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Miklubraut og beygt suður Kringlumýrarbraut, og bifreið, sem var ekið austur Miklubraut. Ökumaður og farþegi úr síðarnefndu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Fimmtudaginn 28. júní kl. 20.27 varð gangandi vegfarandi, drengur, fyrir bifreið, sem var ekið aftur á bak út úr stæði á efra bifreiðastæði Kringlunnar. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 13. júní. Kl. 14.14 varð tveggja ára gamalt barn fyrir bifreið á bifreiðastæði við Costco í Kauptúni. Barnið var flutt á slysadeild. Og kl. 20.43 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Arnarnesveg, og bifreið, sem var ekið af Salavegi og beygt áleiðis austur Arnarnesveg. Báðir ökumennirnir og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á Breiðholtsbraut.