Frá vettvangi á Réttarhálsi.
16 Júlí 2018 10:00

Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 8. – 14. júlí.  

Sunnudaginn 8. júlí kl. 15.04 var bifreið ekið norður Vesturlandsveg og aftan á bifreið í sömu akstursstefnu skammt frá Lambhagavegi. Farþegi í fremri bifreiðinni vat fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 9. júlí kl. 0.59 var bifreið veitt eftirför lögreglubifreiðar um miðborgina beggja vegna Lækjargötu og síðan stöðvuð á Öldugötu eftir árekstur við tvær bifreiðar á leiðinni. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Fernt var flutt á slysadeild.

Miðvikudaginn 11. júlí kl. 12.01 var bifreið ekið á húsvegg við Réttarháls eftir að ökumaðurinn hafði ætlað að leggja þar í stæði fatlaðra. Farþegi var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 12. júlí. Kl. 14.37 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Miklubraut, og bifreið, sem var ekið suður Grensásveg. Ökumaður síðanefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.27 var léttu bifhjóli ekið af göngustíg á grindverk við Gnoðarvog. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 14. júlí kl. 6.43 féll hjólreiðamaður, á leið vestur Njálsgötu, af hjóli sínu gegnt húsi nr. 21. Hann var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á Réttarhálsi.