Frá vettvangi við Strandveg.
30 Júlí 2018 12:54

Í síðustu viku slösuðust tólf vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 22. – 28. júlí.

Mánudaginn 23. júlí kl. 17.34 féll hjólreiðamaður við Súðarvog 32. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 24. júlí. Kl. 23.42 var bifreið ekið norður Strandveg og á ljósastaur norðan Korpúlfsstaðavegar. Ökumaður og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild. Og kl. 23.47 var bifreið ekið vestur Reykjanesbraut við Hvassahraun þegar silfurlitaðri Audi-fólksbifreið var ekið utan í hlið hennar með þeim afleiðingum að bifreiðin fór út af brautinni og valt. Audi-bifreiðinni var ekið hiklaust á brott af vettvangi. Farþegi var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 25. júlí. Kl. 11.40 var gangandi vegfarandi, á leið yfir Grensásveg til austurs sunnan Fellsmúla, fyrir bifreið, sem var ekið vestur Skeifuna og beygt áleiðis suður Grensásveg. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 11.49 varð árekstur með flutningabifreið, sem var ekið vestur Vesturlandsveg, og fólksbifreið, sem var ekið austur veginn og beygt yfir á rangan vegarhelming við Hólmsá. Við áreksturinn kastaðist síðarnefnda bifreiðin út fyrir veg þar sem eldur kom upp í henni. Ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.

Fimmtudaginn 26. júlí kl. 16.47 var bifreið ekið á stillansa við Hofsvallagötu 55. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 27. júlí. Kl. 10.36 var bifreið ekið um Fífuhvammsveg og velt í hringtorgi við Arnarnesveg. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.40 varð hjólreiðamaður fyrir bifreið á Rafstöðvarvegi á leið til austurs. Hann var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 28. júlí kl. 13.58 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Suðurlandsveg og ekið um ytri akrein hringtorgs með fyrirhugaða akstursstefnu suður Breiðholtsbraut, og bifhjóli, sem var ekið um innri hring torgsins með fyrirhugaða akstursstefnu vestur Suðurlandsveg. Ökumaður bifhjólsins ætlaði að leita sér læknisaðstoðar í framhaldinu.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi við Strandveg.