Frá vettvangi við Nesjavallaleið.
7 Ágúst 2018 13:09

Í síðustu viku slösuðust tíu vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 29. júlí  – 4. ágúst.   

Sunnudaginn 29. júlí kl. 8.54 féll bifhjólamaður í Korputorgi við Blikastaðaveg. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 1. ágúst. Kl. 19.55 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Suðurlandsveg, út fyrir veg og síðan áleiðis í U-beygju við Rauðavatn, þrátt fyrir óbrotna miðlínu, og bifreið, sem var ekið norður veginn. Ökumaður og farþegi í síðarnefndu bifreiðinni fóru á slysadeild í framhaldinu. Og kl. 20.53 féll hjólreiðamaður af hjóli sínu á leið norður Réttarholtsveg við Sogaveg. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 2. ágúst. Kl. 4.57 var bifreið ekið suður Hafnarfjarðarveg og á grjót við veginn við Arnarnesbrú. Ökumaðurinn, sem virðist hafa „dottið út” skömmu áður en óhappið varð, var fluttur á slysadeild. Og kl. 8.58 var bifreið ekið suður Vesturlandsveg, framúr bifreiðum gegnt Grundarhverfi á öðru hundraðinu (leyfður hámarkshraði er 70 km/klst), þrátt fyrir óbrotna miðlínu, og aftan á bifreið, sem var ekið frá Vallargrund og áleiðis suður veginn. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 4. ágúst. Kl.1.17 var bifreið ekið vestur Nesjavallaleið, út af henni að norðanverðu miðja vegu og á hitaveiturör. Ökumaðurinn hafði sofnað undir stýri. Hann, ásamt farþega, var fluttur á slysadeild. Og kl. 4.15 var bifreið ekið um Vesturlandsveg og á ljósastaur við gatnamót Skarhólabrautar. Ökumaðurinn, sem hafði sofnað undir stýri, var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi við Nesjavallaleið.