14 Ágúst 2018 08:49

Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 5. – 11. ágúst.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 6. ágúst. Kl. 7.54 féll bifhjólamaður á leið vestur Háteigsveg og í beygju áleiðis suður Rauðarárstíg af hjólinu. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 17.08 féll hjólreiðamaður á Heiðarvegi í Heiðmörk. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.30 varð aftanákeyrsla á gatnamótum Breiðholtsbrautar og Selásbrautar. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 8. ágúst. Kl. 7.43 féll hjólreiðamaður á leið norðvestur Fífuhvammsveg af hjóli sínu er hann var að fara yfir Fitjalind á gangbraut. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 14.52 varð aftanákeyrsla í afrein Kringlumýrarbrautar til norðurs að Miklubraut. Farþegi í fremri bifreiðinni var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.16 varð aftanákeyrsla í frárein Arnarnesvegar að Lindarvegi. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 9. ágúst. Kl. 19.11 var bifreið bakkað til suðurs á Lönguhlíð sunnan Miklubrautar og á gangandi vegfaranda, sem var á gönguleið til austurs yfir götuna. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 20.28 féll ökumaður vespu fram fyrir sig er hann hemlaði á bifreiðastæði við Smáralind. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 10.57 slasaðist hjólreiðamaður er hann lenti á öðrum við endamark hjólreiðakeppi við gatnamót Borgahellu og Búðahellu. Hann var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.