Frá vettvangi á Suðurlandsvegi.
4 September 2018 11:03

Í síðustu viku slösuðust þrettán vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 26. ágúst – 1. september.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 26. ágúst. Kl. 21.15 læstist afturhjól bifhjóls, sem var ekið austur Arnarbakka að Núpabakka með þeim afleiðingum að ökumaðurinn féll af hjólinu. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.56  var vespu ekið inn í garð húss við Fjallakór og þar niður af syllu eftir að lögreglan hafði veitt ökumanninum stutta eftirför um hverfið. Ökumaðurinn, sem tekið hafði vespuna ófrjálsri hendi, var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 27. ágúst. Kl. 14.27 var bifreið ekið vestur Miklubraut og beygt inn á frárein að Skeiðarvogi þar sem hún rann til í bleytu, fór upp á enda vegriðs og valt á toppinn. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.52 var bifreið ekið vestur Reykjanesbraut og á ljósastaur skammt frá Straumi. Vatn var í hjólfararásum vegarins. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Fimm umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 29. ágúst. Kl. 16.29 varð árekstur með bifreið, sem var ekið suður Suðurlandsveg, á vinstra afturhorn bifreiðar fyrir framan norðan Breiðholtsbrautar og síðan yfir á rangan vegarhelming, og bifreið, sem var ekið norður veginn. Tveir ökumenn og farþegi voru fluttir á slysadeild. Kl. 16.45 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Reykjanesbraut gegnt Ásbraut. Tveir ökumannanna voru fluttir á slysadeild. Kl. 17.07 varð barn undir bifreið á bifreiðastæði Fjarðarkaupa við Hólshraun. Barnið var flutt á slysadeild. Kl. 19.37 varð tveggja bifreiða aftanákeyrsla á Reykjanesbraut gegnt Ásvöllum. Ökumaður fremri bifreiðarinnar ætlaði að leita sér aðhlynningar í framhaldinu. Og kl. 20.32 var bifreið ekið á vegrið við Þingvallaveg nálægt afleggjara að Hlaðgerðarkoti. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 31. ágúst kl. 12.43 lenti hjólreiðamaður, á leið til norðurs á gangstétt austan Nóatúns og áleiðis yfir Hátún, á afturhlið bifreiðar, sem var ekið suður Nóatún og beygt austur Hátún. Hjólreiðamaðurinn ætlaði að leita sér aðhlynningar á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á Suðurlandsvegi.