Frá vettvangi á Arnarnesvegi.
10 September 2018 12:45

Í síðustu viku slösuðust tólf vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 2. – 8. september.

Sunnudaginn 2. september kl. 20.45 féll hjólreiðamaður á gangstíg á Arnarhóli. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 4. september. Kl. 14.06 var bifreið ekið vestur Stekkkjarbakka, yfir á rangan vegarhelming og stöðvaðist á ljósastaur sunnan  götunnar gegnt Skálará. Ökumaðurinn, sem mun hafa fengið flogakast skömmu áður en óhappið varð, var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.29 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Suðurlandsbraut, og bifreið, sem var ekið vestur brautuna og beygt áleiðis suður Hallarmúla. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 5. september. Kl. 0.05 var bifreið ekið á ljósastaur við beygju efst á Reykjavegi í Mosfellsbæ, gegnt Teigi. Tveir farþegar voru fluttir á slysadeild. Kl. 13.34 var bifreið ekið vestur Bústaðaveg, yfir á rangan vegarhelming skammt austan Flugvallarvegar og utan í fimm bifreiðir, sem var ekið austur Bústaðaveg. Bifreiðin stöðvaðist loks á vegriði. Ökumaðurinn mun hafa misst meðvitund skömmu áður en óhappið varð. Tveir ökumenn og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 16.03 féll ökumaður bifhjóls, sem var ekið suðaustur Svarthöfða, af hjóli sínu, sem síðan rann áfram eftir götunni og á hlið bifreiðar, sem var ekið norðvestur götuna. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 7. september kl. 16 var bifreið ekið inn á húsagötu Suðurlandsbrautar frá Hallarmúla og á fyrirtækjaskiltastand þar sem hún stöðvaðist. Ökumaðurinn, sem hafði misst meðvitund skömmu áður, var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 8. september. Kl. 9.42 var bifreið ekið suður Kringlumýrarbraut og aftan á bifreið, sem hafði verið ekið inn á brautina af frárein Bústaðavegar. Við áreksturinn valt síðarnefnda bifreiðin, en ökumaður þeirrar fyrrnefndu ók hiklaust á brott af vettvangi. Hann fannst skömmu síðar við Hamraborg og bar því við að hafa fengið flogakast áður en óhappið varð. Hinn ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.10 varð árekstur með bifreið, sem var ekið inn á hringtorg Arnarnesvegar af frárein Reykjanesbrautar til norðurs og beygt til vesturs, öfugt m.v. akstursstefnu, og bifreið, sem var ekið austur Arnarnesveg og inn á hringtorgið. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á Arnarnesvegi.