Frá vettvangi á Reykjanesbraut í Hafnarfirði.
20 Ágúst 2018 09:11

Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 12. – 18. ágúst.

Þriðjudaginn 14. ágúst kl. 18.18 hjólaði hjólreiðamaður á annan hjólreiðamann á göngustíg við gatnamót Lönguhlíðar og Háteigsvegar. Sá fyrrnefndi var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 15. ágúst kl. 10.57 var vespu ekið af göngustíg inn á Suðurvang við hús nr. 13 og á hlið bifreiðar, sem ekið var um götuna. Ökumaður vespunnar var fluttur á slysadeild.

Fimm umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 16. ágúst. Kl. 7.31 varð fjögurra bifreiða aftanákeyrsla á Reykjanesbraut til norðurs á mislægum gatnamótum yfir Strandgötu. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Kl. 8.01 varð aftanákeyrsla á vinstri akrein Vesturlandsvegar á leið til vesturs vestan Viðarhöfða. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 15.10 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Miðhellu, og bifreið, sem var ekið austur Selhellu. Biðskylda er á Miðhellu gagnvart Selhellu. Eftir áreksturinn stöðvaðist fyrrnefnda bifreiðin á umferðarmerki. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 16.09 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Suðurlandsbraut, og bifreið, sem var ekið austur brautina og áleiðis í U-beygju á gatnamótum Vegmúla. Farþegi í annarri bifreiðinni leitaði sér læknisaðstoðar í framhaldinu. Og kl. 20.13 var bifreið ekið austur Vefarastræti þegar drengur hljóp út á götuna á móts við hús nr. 11 og á hægri hlið bifreiðarinnar. Drengurinn var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 18. ágúst. Kl. 10.39 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Bústaðaveg og beygt áleiðis suður Stjörnugróf, og bifhjóli, sem var ekið vestur Bústaðaveg og áleiðis vinstra megin framúr bifreiðinni við gatnamótin. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á slysadeild. Kl. 18.01 féll hjólreiðamaður af hjóli sínu á hjólastíg norðan Sæbrautar gegnt Snorrabraut. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.06 lenti bifreið, sem var ekið norður Vatnsmýrarveg og beygt áleiðis vestur Gömlu-Hringbraut, á hjólreiðamanni, sem var á leið til vesturs meðfram Gömlu-Hringbraut og áfram vestur yfir Vatnsmýrarveg á ómerktri gönguleið. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á Reykjanesbraut í Hafnarfirði.