Frá vettvangi á Bústaðavegi.
27 Ágúst 2018 08:28

Í síðustu viku slösuðust þrettán vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 19. – 25. ágúst.

Sunnudaginn 19. ágúst kl. 3.01  dróst farþegi leigubifreiðar, sem hafði stigið áleiðis út úr aftursætinu gegnt húsi nr. 4 við Lækjargötu í Hafnarfirði, með bifreiðinni nokkra vegalengd uns hann losnaði, en þá var bifreiðinni ekið yfir fót farþegans. Leigubifreiðinni, svartri M. Benz, var hins vegar ekið á brott af vettvangi. Farþeginn var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 20. ágúst kl. 13.02 varð drengur á reiðhjóli á leið norður Skólabraut við Hofsstaðaskóla, fyrir bifreið, sem var ekið vestur götuna og beygt áleiðis til vesturs að bifreiðastæði, sem þar er. Móðir drengsins ætlaði að færa hann á slysadeild til aðhlynningar.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 21. ágúst. Kl. 8.56 var bifreið ekið vestur Bústaðaveg, yfir á rangan vegarhelming og framan á strætisvagn, sem var ekið austur veginn ofan Landspítalans í Fossvogi. Ökumaður bifreiðarinnar, sem hafði sofnað undir stýri áður en áreksturinn varð, var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.52 varð stúlka á reiðhjóli, á leið yfir Þúsöld skammt austan gatnamóta Vínlandsleiðar, fyrir bifreið, sem var ekið vestur götuna. Ekki um eiginlega gangbraut að ræða, þar sem engar merkingar eru né umferðarskilti sem gefa til kynna að gangbraut sé þarna í nánd. Stúlkan var flutt á slysadeild.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 22. ágúst. Kl. 15.37 lenti drengur á reiðhjóli, á leið til norðurs yfir Breiðholtsbraut við gatnamót Vatnsendahvarfs, fyrir bifreið, sem var ekið vestur götuna. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 17.45 varð hjólreiðamaður, sem hjólaði austur Skútuvog, fyrir bifreið, sem var ekið austur götuna og beygt áleiðis að bifreiðastæði við Húsasmiðjuna. Hjólreiðamaðurinn leitaði sér í framhaldinu aðhlynningar á slysadeild. Kl. 19.59 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Breiðholtsbraut, og bifreið, sem var ekið suður Stekkjarbakka með fyrirhugaða akstursstefnu áfram suður Skógarsel. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 20.41 féllu tveir hjólreiðamenn í hópi 10-12 félaga af hjólum sínum eftir að hafa rekist saman á leið vestur Suðurströnd. Þeir voru fluttir á slysadeild.

Fimmtudaginn 23. ágúst kl. 22.17 féll hjólreiðamaður af hjólinu í undirgöngum Miklubrautar að Kringlunni. Maðurinn, sem virtist vera undir áhrifum áfengis, var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 24. ágúst kl. 17.07 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Stórhöfða, beygt inn á bifreiðaplan norðan götunnar skammt vestan gatnamóta Höfðabakka og áleiðis í U-beygju inn á Stórhöfða, og bifreið, sem var ekið austur götuna. Ökumaður og farþegi síðarnefndu bifreiðarinnar voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á Bústaðavegi.