17 September 2018 11:02
Í síðustu viku slösuðust tíu vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 9. – 15. september.
Mánudaginn 10. september kl. 19.30 varð árekstur með bifreið, sem var ekið suður Vesturlandsveg, yfir á rangan vegarhelming skammt norðan brúar yfir í Leirvogstunguhverfi, og bifreið, sem var ekið norður Vesturlandsveg. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar er grunaður akstur undir áhrifum fíkneifna. Báðir ökumennirnir og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild.
Miðvikudaginn 12. september kl. 0.48 féll ökumaður bifhjóls af hjólinu á Suðurlandsbraut við Fákafen á leið til austurs. Ökumaðurinn, sem er grunaður um fíkniefnakstur, auk þess sem hann hafði verið sviptur ökuréttindum, var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 13. september. Kl. 9.46 var bifreið ekið austur Holtagerði og framan á mannlausa bifreið gegnt húsi nr. 5. Ökumaðurinn, sem hafði verið að stilla miðstöðina áður en óhappið var, var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.11 var bifreið ekið suður Vesturlandsveg, utan í vegrið nálægt afleggjara að Esjubergi og síðan út fyrir veg þar sem hún valt ofan í skurð. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Ökumaðurinn hafi dottað undir stýri áður en óhappið varð.
Föstudaginn 14. september kl. 16.18 varð gangandi vegfarandi á leið til austurs yfir Háagerði, á gangbraut sunnan Sogavegar, fyrir bifreið, sem var ekið austur Sogaveg og beygt suður Háagerði. Hann var fluttur á slysadeild.
Laugardaginn 15. september kl. 23.20 féll ökumaður vespu á leið til vesturs eftir gangstétt Dalvegar gegnt Saffran. Hann var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.