Frá vettvangi á Kalkofnsvegi.
3 Október 2018 18:07

Í síðustu viku slösuðust tuttugu vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 23. – 29. september.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 24. september. Kl. 8.19 var bifreið ekið norður Vesturlandsveg og aftan á kyrrstæða bifreið við gatnamót að Tindum. Við áreksturinn kastaðist sú bifreið aftan aðra kyrrstæða bifreið framundan. Ökumaður fyrstnefndu bifreiðarinnar, sem hafði verið eitthvað annars hugar áður en óhappið varð, var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.33 varð gangandi vegfarandi fyrir vespu, sem ekið var um gangstéttina framan við verslanir við Bæjarlind 1-3. Hann ætlaði sjálfur að leita sér læknisaðhlynningar í framhaldinu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 25. september. Kl. 7.44 varð aftanákeyrsla á Vesturlandsvegi við hringtorg Álafossvegar. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.48 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Höfðabakkabrú. Tveir ökumenn og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 26. september. Kl. 14.47 var bifreið ekið vestur Vesturlandsveg og aftan á kyrrstæða lögreglubifreið utan vegar skammt vestan Bláfjallavegar. Fimm voru fluttir á slysadeild. Ökumaður bifreiðarinnar mun hafa sofnað undir stýri skömmu áður en óhappið varð. Og kl. 16.01 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Bústaðavegi austan Kringlumýrarbrautar á leið til vesturs. Þrennt var flutt á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 27. september. Kl. 8.36 var bifreið ekið austur Breiðholtsbraut og aftan á aðra bifreið vestan Vatnsveituvegar. Ökumaður aftari bifreiðarinnar var eitthvað annars hugar áður en óhappið varð. Báðir ökumennirnir ætluðu að leita sér aðhlynninga lækna í framhaldinu. Og kl. 15.28 varð aftanákeyrsla á Miklubraut við Kringlumýrarbraut. Báðir ökumennirnir fóru á slysadeild.

Föstudaginn 28. september kl. 19.02 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Kalkofnsveg og beygt norður Faxagötu, og bifreið, sem var ekið vestur Kalkofnsveg. Farþegi í fyrrnefndu bifreiðinni var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á Kalkofnsvegi.