Frá vettvangi á Miklubraut.
24 September 2018 08:06

Í síðustu viku slösuðust sextán vegfarendur í þrettán umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 16. – 22. september.

Sunnudaginn 16. september kl. 20.54 var bifreið ekið norður Víðinesveg og út fyrir veginn í aflíðandi beygju, sem þar er. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 17. september kl. 7.58 varð stúlka á vespu, á leið til vesturs á Hringbraut, fyrir bifreið, sem var ekið norður Jófríðastaðaveg og áleiðis inn á brautina. Stúlkan var flutt á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 18. september. Kl. 12.18  varð aftanákeyrsla á Víkurvegi við Þúsöld. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 14.39 var bifreið ekið Víðinesveg frá Víðinesi og út fyrir veg í beygju þar sem hún valt með þeim afleiðingum að ökumaðurinn varð undir henni. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.56 varð árekstur með bifreið, sem var ekið suður Háaleitisbraut og beygt áleiðis austur Miklubraut, og bifreið, sem var ekið norður Háaleitisbraut. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 19. september. Kl. 11.20 var vespu ekið á dreng við Hörðuvallaskóla. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 16.06 varð hjólreiðamaður á leið til suðurs á gangstétt vestan Sogavegar og áfram áleiðis yfir Austurgerði, fyrir bifreið, sem var ekið austur gerðið og beygt áleiðis suður Sogaveg. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.43 var rauðri vespu ekið utan í hjólreiðamann þar sem ökutækin voru á leið í gagnstæðar átti á göngu-/hjólastíg í undirgöngum Höfðabakka neðan við Árbæjarstífluna. Ökumaður vespunnar ók á brott af vettvangi, en hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 20. september. kl. 8.25 varð hjólreiðamaður, á leið til austurs með Hringbraut, yfir gatnamót Brávallagötu á upphækkaðri ómerktri gangbraut, fyrir bifreið, sem var ekið suður Brávallagötu og beygt áleiðis vestur Hringbraut. Hann var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 21. september. Kl. 10.24 varð árekstur með bifreið, sem var ekið af frárein Reykjanesbrautar inn í innri hring hringtorgs við Stekkjarbakka/Smiðjuvegar og síðan beygt út úr því áleiðis suður Smiðjuveg, og bifreið, sem var ekið um ytri hring hringtorgsins. Farþegi í fyrrnefndu bifreiðinni var fluttur á slysadeild. Kl. 16.52 féll hjólreiðamaður, á göngustíg í Kópavogsdal neðan Hlíðarhjalla, af hjóli sínu þegar það datt skyndilega í sundur. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 21 varð árekstur með bifreið, sem var ekið suður Hafnarfjarðarveg og beygt til austurs gegnt Hagkaupum, og bifreið, sem var ekið norður veginn. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 22. september kl. 12.27 varð aftanákeyrsla á Sæbraut við Súðarvog. Þrennt var flutt á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á Miklubraut.