22 Október 2018 15:03
Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 14. – 20. október.
Sunnudaginn 14. október kl. 9.48 féll hjólreiðamaður af hjóli sínu á gangstétt í Furugrund gegnt húsi nr. 76. Hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 15. október. Kl. 12.36 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Bústaðaveg og beygt áleiðis norður Reykjanesbraut, og bifreið, sem var ekið suður Reykjanesbraut. Báðir ökumennirnir og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 17.04 varð gangandi vegfarandi, á gangbraut í Ánanaustum gegnt Olís, fyrir bifreið, sem var ekið austur götuna. Hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 17. október. Kl. 0.02 var bifreið ekið austur Sæbraut og á vegrið gegnt Holtagörðum . Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.36 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið á Digranesvegi gegnt Kópavogsskóla. Hann var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 18. október kl. 16.49 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Reykjanesbraut til norðurs skammt sunnan Bústaðavegar. Tveir ökumannanna voru fluttir á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.