Frá vettvangi í Suðurhellu.
4 Desember 2018 17:41

Í síðustu viku slösuðust átján vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 25. nóvember – 1. desember.

Sunnudaginn 25. nóvember kl. 0.23 var bifreið ekið á mannlausa bifreið við Suðurhellu 10. Ökumaður og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 26. nóvember. Kl. 15.17 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Breiðholtsbraut, og bifreið, sem var ekið vestur Breiðholtsbraut og beygt suður Seljabraut. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.48 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið, sem var ekið frá bifreiðastæði við hús nr. 10 við Gullsmára og beygt áleiðis vestur götuna. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 27. nóvember. Kl. 18.38 varð drengur á reiðhjóli, á leið til suðurs yfir Miklubraut austan Lönguhlíðar, fyrir bifreið, sem var ekið vestur Miklubraut. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.02 var bifreið ekið norður Reykjanesbraut og aftan á kyrrstæða (bilaða) bifreið á akrein norðan Hlíðartorgs. Ökumaðurinn leitaði sér læknisaðstoðar í framhaldinu.

Fimmtudaginn 29. nóvember kl. 18.55 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Stórhöfða, og bifreið, sem var ekið austur Stórhöfða og beygt til norðurs að bifreiðastæði húss nr. 17. Báðir ökumennirnir og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 30. nóvember. Kl. 16.21 varð aftanákeyrsla á Breiðholtsbraut til suðurs skammt norðan Selásbrautar. Báðir ökumennirnir og farþegi voru fluttir á slysadeild. Kl. 16.50 varð aftanákeyrsla á Reykjanesbraut gegnt Hvaleyrarholti á leið til austurs. Ökumaður aftari bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 22.10 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Reykjanesbraut, beygt til hægri út á vegöxl norðan álversins og síðan áleiðis í vinstri U-beygju inn á brautina, og bifreið, sem var ekið vestur Reykjanesbraut. Ökumennirnir voru báðir fluttir á slysadeild. Og kl. 22.18 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Háaleitisbraut, og bifreið, sem var ekið suður Kringlumýrarbraut. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar ætlaði sjálfur að leita sér læknisaðstoðar í framhaldinu.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi í Suðurhellu.