Frá vettvangi á Kleppsmýrarvegi.
10 Desember 2018 12:57

Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 2. – 8. desember.

Mánudaginn 3. desember kl. 15.55 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Kleppsmýrarveg og beygt suður Súðarvog, og bifreið, sem var ekið austur Kleppsmýrarveg. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 4. desember. Kl. 5.13 var bifreið ekið suður Hafnarfjarðarveg og á ljósastaur vestan vegarins skammt sunnan Arnarnesbrúar. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 11.19 var bifreið ekið suður Hafnarfjarðarveg, utan í vegrið austan vegarins sunnan Arnarnesbrúar og út fyrir hann að vestanverðu þar sem bifreiðin lenti á hljóðmön, snerist og valt við það eina og hálfa veltu. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 8. desember. Kl. 11.07 varð árekstur tveggja bifreiða á gatnamótum Kauptúns og Urriðaholtsstrætis. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Kl. 17.33 varð fjögurra bifreiða aftanákeyrsla á Kringlumýrarbraut á leið til suðurs skammt frá Bústaðavegi. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild. Kl. 17.47 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Vífilsstaðaveg, og bifreið, sem var ekið suður Hafnarfjarðarveg. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.16 bifreið ekið norður Kringlumýrarbraut. Þegar ökumaðurinn skipti um akrein gegnt Kringlunni lenti bifreið hans aftan á kyrrstæðri bifreið í röð bifreiða á þeirri akrein. Ökumaður og þrír farþegar voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á Kleppsmýrarvegi.