Frá vettvangi á Vesturlandsvegi.
26 Nóvember 2018 11:06

Í síðustu viku slösuðust fimmtán vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 18. – 24. nóvember.

Sunnudaginn 18. nóvember kl. 17.27 varð gangandi vegfarandi, á leið yfir Fífuhvammsveg í hringtorgi við Lindarveg, fyrir bifreið sem ekið var um torgið. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 19. nóvember. Kl. 14 var bifreið ekið austur Vesturlandsveg og aftan á flutningabifreið, sem var ekið í sömu átt skammt austan Grjótháls. Við áreksturinn lenti síðarnefnda bifreiðin utan í hlið bifreiðar, sem var ekið samhliða henni. Ökumaður fyrstnefndu bifreiðarinnar hafði fengið krampa skömmu áður en óhappið varð og lognast út af við aksturinn. Ökumennirnir þrír voru fluttir á slysadeild. Og kl. 15.37 varð árekstur með bifreið, sem var ekið frá Holtavegi inn á Vatnagarða til suðurs, og bifreið, sem var ekið aftur á bak inn á götuna frá bifreiðastæði við hús nr. 38. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 21. nóvember. Kl. 10.53 féll farþegi, sem var að setjast inn í bifreið á Hofstaðabraut við Víðilund, út úr henni. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 18.05 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið á Bústaðavegi við Eyrarland. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.41 datt farþegi út úr kyrrstæðri hárri, breyttri, jeppabifreið við gatnamót Hverfisgötu og Smiðjustígs. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 22. nóvember. Kl. 13.11 féll hjólreiðamaður af hjóli sínu á Geirsgötu við Kolaportið. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.01 lenti hjólreiðamaður, á leið vestur sunnanverða Eskihlíð, á bifreið, sem var ekið út frá bifreiðastæði við hús nr. 20. Hann var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 23. nóvember kl. 8.11 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Kringlumýrarbraut til norðurs sunnan Bústaðavegarbrúar. Tveir ökumenn og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Laugardaginn 24. nóvember kl. 11.53 varð árekstur með tveimur bifreiðum á gatnamótum Háaleitisbrautar og Smáagerðis. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á Vesturlandsvegi.