Frá vettvangi á Höfðabakka.
19 Nóvember 2018 12:34

Í síðustu viku slösuðust nítján vegfarendur og einn lést í þrettán umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 11. – 17. nóvember.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 11. nóvember. Kl. 2.35 varð sitjandi vegfarandi á miðjum Bústaðavegi á móts við Byggðarenda, fyrir bifreið, sem var ekð vestur götuna. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 12.03 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Skeljanes frá Fáfnisnesi, og strætisvagni, sem var ekið suður Skeljanes. Bæði ökutækin voru á miðri götunni þegar óhappið varð. Ökumennirnir ætluðu að leita sér læknisaðstoðar í framhaldinu. Og kl. 22.58 var bifreið ekið vestur Vesturlandsveg, á ljósastaur, og út síðan fyrir veg gegnt Viðarhöfða. Ökumaðurinn, sem er grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 12. nóvember kl. 11.36 varð gangandi vegfarandi fyrir vörubifreið á Sæbraut til suðurs vestan gatnamóta Kringlumýrarbrautar, en bifreiðinni var ekið vestur Sæbraut. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild þar sem hann var úrskurðaður látinn.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 13. nóvember. Kl. 8.44 varð hjólreiðamaður á leið suður yfir Rimaflöt austan Strandvegar fyrir bifreið, sem var ekið norður Strandveg og beygt austur flötina. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 17.48 varð árekstur með bifreið, sem var ekið suður Hafnarfjarðarveg með fyrirhugaða aksturstsstefnu áfram suður Reykjavíkurveg, og bifreið, sem var ekið norður Reykjavíkurveg og beygt áleiðis vestur Álftanesveg. Ökumaður og farþegi í fyrrnefndu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Og kl. 19.32 varð árekstur með bifreið, sem var ekið suður Holtsveg, og bifreið, sem var ekið inn á Holtsveg frá bifreiðastæði við hús nr. 35 og beygt áleiðis norður götuna. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar leitaði sér læknisaðstoðar í framhaldinu.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 14. nóvember. Kl. 0.50 varð árekstur með tveimur bifreiðum á Höfðabakka. Bifreiðunum hafði verið ekið í gagnstæðar áttir. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Hann er grunaður um ölvunarakstur. Kl. 5.43 var bifreið ekið vestur Hringbraut, beygt austur Nauthólsveg og upp á háan kant við gatnamótin til að koma í veg fyrir árekstur við bifreið, sem var ekið austur Hringbraut og beygt áleiðis suður Nauthólsveg. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.08 féll hjólreiðamaður á göngustíg aftan við Rjúpnasali. Maðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 15. nóvember kl. 7.58 varð árekstur með bifreið, sem var ekið suður Breiðholtsbraut, og bifreið sem var ekið norður brautina og beygt vestur Seljaskóga. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar ætlaði að leita sér læknisaðstoðar.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 17. nóvember. Kl. 15.27 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Sæbraut og beygt suður Kringlumýrarbraut, og bifreið, sem var ekið austur Sæbraut. Ökumaður og þrír farþegar í fyrrnefndu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Og kl. 18.15 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Arnarnesveg, og bifreið, sem var ekið norður Salaveg og beygt áleiðis austur Arnarnesveg. Ökumaður og tveir farþegar í síðarnefndu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á Höfðabakka.