Frá vettvangi við Reykjanesbraut.
31 Desember 2018 08:41

Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 23. – 29. desember.

Sunnudaginn 23. desember kl. 20.52 var bifreið ekið vestur Reykjanesbraut, út fyrir veg vestan Straums og velt. Ökumaður og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 27. desember. Kl. 1.57 var bifreið ekið út af Vífilsstaðavegi norðan við Vífilsstaðavatn og velt. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 7.43 féll bifhjólamaður af hjóli sínu á Grensásvegi við Miklubraut. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 9 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Hálsabraut, og bifreið, sem var ekið vestur Krókháls. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.

Föstudaginn 28. desember kl. 1.12 var bifreið ekið um frárein Vesturlandsvegar að Þúsöld/Reynisvatnsvegi/Víkurvegi þegar hún ran til og lenti á ljósastaur milli akbrauta. Skömmu síðar var bifreið ekið um fráreinina og aftan á fyrrnefndu bifreiðina kyrrstæða. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi við Reykjanesbraut.