Frá vettvangi á gatnamótum Höfðabakka og Bíldshöfða.
15 Janúar 2019 12:47

Í síðustu viku slösuðust þrettán vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 6. – 12. janúar.

Mánudaginn 7. janúar kl. 17.42 var bifreið ekið á tvær mannlausar bifreiðir við Neshaga. Ökumaðurinn flúði fótgangandi af vettvangi, en var handtekinn skömmu síðar. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 8. janúar. Kl. 12.55 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Skeiðarvog og áfram suður Kleppsmýrarveg, og bifreið, sem var ekið vestur Kleppsmýrarveg og beygt suður Sæbraut. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 13.17 varð hjólreiðamaður, á leið norður Þjóðhildarstíg, fyrir bifreið, sem var ekið suður götuna og beygt til austurs, að KFC. Hann var fluttur á slysadeild.

Fimm umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 9. janúar. Kl. 8.27 var stúlka, á gangi til suðurs yfir Hringbraut vestan Meistaravalla, fyrir bifreið, sem var ekið austur Hringbraut. Hún var flutt á slysadeild. Kl. 9.12 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Vesturlandsvegi undir Höfðabakkabrú á leið til vesturs. Tveir ökumenn og farþegi voru fluttir á slysadeild. Kl. 11.27 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Bíldshöfða, og bifreið, sem var ekið suður Höfðabakka. Við áreksturinn snerist síðarnefnda bifreiðin og stöðvaðist á umferðarljósavita. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar ætlaði að leita sér aðhlynningar í framhaldinu. Kl. 12.34 var bifreið ekið austur Hringbraut og aftan á bifreið við gatnamót Hofsvallagötu. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.20 var bifreið bakkað úr stæði við Lönguhlíð og á hægri hurð bifreiðar í því er farþegi var að stíga út úr henni. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 11. janúar. Kl. 8.49 varð árekstur með bifreið, sem var ekið inn á Nauthólsveg gegnt Icelandair Hótel Reykjavík Natura, og bifreið sem var ekið suður Nauthólsveg. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 16.02 varð aftanákeyrsla í afrein Kringlumýrarbrautar til norðurs að Miklubraut til austurs. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á gatnamótum Höfðabakka og Bíldshöfða.