21 Janúar 2019 11:29
Í síðustu viku slösuðust sex vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 13. – 19. janúar.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 13. janúar. Kl. 20 var bifreið ekið aftan á aðra bifreið í Suðurfelli við Breiðholtsbraut. Ökumaður fremri bifreiðarinnar ók á brott eftir óhappið, en þurfti að leyta sér læknisaðstoðar í framhaldinu. Og kl. 20.57 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Arnarnesveg, og bifreið, sem var ekið vestur Arnarnesveg og beygt áleiðis til suðurs að Hafnarfjarðarvegi. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.
Miðvikudaginn 16. janúar kl. 8.05 varð drengur á reiðhjóli, sem hjólaði til suðurs frá innkeyrslu húss út á Sogaveg, fyrir bifreið, sem var ekið austur götuna. Hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 18. janúar. Kl. 12.13 varð fjögurra bifreiða aftanákeyrsla á Vesturlandsvegi í Ártúnsbrekku til austurs. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 14.11 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Miklubraut gegnt Rauðagerði til austurs. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.