Frá vettvangi á Suðurlandsvegi.
11 Mars 2019 13:49

Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 3. – 9. mars.

Sunnudaginn 3. mars kl. 10.36 varð aftanákeyrsla á Suðurlandsvegi við Vesturlandsveg eftir að fremri bifreiðinni hafði verið ekið í U-beygju á veginum, þrátt fyrir heilmálaða miðlínu. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.

Mánudaginn 4. mars kl. 15.47 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Vínlandsleið og beygt til norðurs að Húsamiðjunni, og lögreglubifreið í forgangsakstri, sem var ekið austur götuna og áleiðis framúr fyrrnefndu bifreiðinni. Ökumaður og farþegi hennar ætluðu að leita sér læknisaðstoðar í framhaldinu.

Þriðjudaginn 5. mars kl. 9.07 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Arnarnesvegi á Arnarneshálsi á leið til vesturs. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild. Ökumaður öftustu bifreiðarinnar er grunaður um fíkniefnaakstur.

Fimmtudaginn 7. mars kl. 20.18 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Lambhagaveg, og bifreið, sem var ekið suður Lambhagaveg og beygt austur Mímisveg. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar ætlaði að leita sér læknisaðstoðar eftir óhappið.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 8. mars. Kl. 9.28 varð árekstur með hópbifreið, sem var ekið aðrein að Bústaðavegi frá Kringlumýrarbraut, og bifreið, sem var ekið vestur Bústaðaveg. Ökumaður bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 19 varð fjögurra ára stúlka fyrir bifreið í Logafold. Hún var flutt á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á Suðurlandsvegi.