Frá vettvangi á Kársnesbraut.
18 Mars 2019 12:39

Í síðustu viku slösuðust tíu vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 10. – 16. mars.

Sunnudaginn 10. mars kl. 0.02 var lögreglubifreið ekið á fólksbifreið í hringtorgi Vesturlandsvegar gegnt Háholti að lokinni eftirför frá Lágafellshömrum. Ökumaður og farþegi lögreglubifreiðarinnar leituðu sér læknisaðstoðar í framhaldinu. Ökumaður fólksbifreiðarinnar er grunaður um ölvunarakstur.

Mánudaginn 11. mars kl. 3.10 var bifreið ekið á ljósastaur við Kársnesbraut eftir hraða eftirför lögreglu frá Lönguhlíð, um Hamrahlíð og Kringlumýrarbraut. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Ökumaðurinn, sem var ökuréttindalaus, er grunaður um fíkniefnaakstur.

Fimmtudaginn 14. mars kl. 12.47 varð árekstur með bifreið, sem var ekið um innri hring hringtorgs Fjarðarhrauns/Flatahrauns/Bæjarhrauns og beygt áleiðis út úr því að Bæjarhrauni, og bifreið, sem var ekið um ytri hring torgsins. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var útlendingur og taldi að akstur um ytri hringinn nyti forgangs. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 15. mars. Kl. 0.45 varð árekstur með lögreglubifreið, sem var ekið norður Reykjavíkurveg og áleiðis í U-beygju gegnt N1, og bifreið, sem var ekið norður veginn. Báðir ökumennirnir og farþegi í lögreglubifreiðinni fengu aðhlynningu á slysadeild. Ökumaður bifreiðarinnar er grunaður um ölvunarakstur. Og kl. 15.51 rann mannlaus bifreið yfir fót ökumanns, sem nýstigið hafði út úr henni á bifreiðastæði Fjarðarkaupa við Hólshraun. Hann var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 16. mars kl. 1.53 var bifreið ekið utan í vegrið á Miklubraut við Lönguhlíð til austurs. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á Kársnesbraut.