Frá vettvangi á Hringbraut.
1 Apríl 2019 12:14

Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 24. – 30. mars.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 24. mars. Kl. 1.51 varð bílvelta við Gullinbrú eftir að bifreið hafði verið ekið á ljósastaur. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 13.27 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Höfðabakka til norðurs skammt frá Vatnsveituvegi. Einn ökumannanna ætlaði að leita sér læknisaðstoðar í framhaldinu. Og kl. 21.46 varð árekstur með bifreið, sem var ekið út frá bifreiðastæði við versluna Iceland að Vesturbergi 76 og beygt áleiðis suður Vesturberg, og bifreið, sem var ekið norður götuna. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 25. mars. Kl. 5.53 varð aftanákeyrsla á afrein Reykjanesbrautar inn á Fjarðarhraun til vesturs. Báðir ökumennirnir ætluðu að leita sér læknisaðstoðar. Og kl. 18.20 var bifreið ekið á ljósastaur við Helgafellsveg eftir að hafa ekið út úr hringtorgi frá Vefarastræti. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 26. mars kl. 14.40 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Hringbraut, og bifreið, sem var ekið suður Hringbraut og beygt austur Njarðargötu. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.

Fimmtudaginn 28. mars kl. 14.15 varð árekstur með bifreið, sem var ekið afrein  Reykjanesbrautar til suðurs og beygt austur Breiðholtsbraut, og tveimur bifreiðum, sem var ekið vestur Breiholtsbraut og beygt áleiðis að frárein að Reykjanesbraut til suðurs. Tveir ökumannanna voru fluttir á slysadeild.

Föstudaginn 29. mars kl. 9.21 var bifreið ekið norður Höfðabakka og á ljósastaur við götuna nálægt Stekkjarbakka. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á Hringbraut.